*

þriðjudagur, 28. september 2021
Fólk 2. september 2021 15:04

Frá Gildi til Lífsverks

Guðrún Inga Ingólfsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður eignastýringar hjá Lífsverki lífeyrissjóði.

Ritstjórn
Guðrún Inga Ingólfsdóttir
Aðsend mynd

Guðrún Inga Ingólfsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður eignastýringar hjá Lífsverki lífeyrissjóði og hefur störf í septembermánuði. Eymundur Freyr Þórarinsson, sérfræðingur í eignastýringu hjá Lífsverki verður staðgengill forstöðumanns.

Guðrún Inga hefur langa reynslu af fjármálamörkuðum og hefur frá árinu 2010 verið staðgengill forstöðumanns eignastýringar Gildis-lífeyrissjóðs, en áður starfaði hún meðal annars við stefnumótun fyrirtækja og viðskiptaráðgjöf í Bandaríkjunum og á Íslandi.

Guðrún Inga er með BS gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í alþjóðahagfræði og –fjármálum frá Brandeis International Business School í Boston. Þá hefur hún einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

„Ég hlakka til að ganga til liðs við Lífsverk lífeyrissjóð og leiða áframhaldandi uppbyggingu og eflingu  eignastýringar sjóðsins til heilla fyrir alla sjóðfélaga“ er haft eftir Guðrúnu Ingu.

„Við bjóðum Guðrúnu Ingu velkomna til starfa og hlökkum til að fá hana í öflugt teymi eignastýringar hjá Lífsverki. Jafnframt er Hreggviði Ingasyni, sem starfað hefur hjá sjóðnum í tæp 6 ár, þökkuð vel unnin störf,“ segir Jón L. Árnason, framkvæmdastjóri Lífsverks.