Guðbrandur Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Borgarplasts hf. og hefur hann þegar hafið störf. Hann var framkvæmdastjóri Plastprents 2010-2012, framkvæmdastjóri PwC 2013-2016 og framkvæmdastjóri Heimavalla frá 2016 til loka mars á þessu ári.

Guðbrandur starfaði í sjávarútvegi um árabil, síðast sem framkvæmdastjóri ÚA og Brims á árunum 1996-2004. Þá var hann forstjóri Mjólkursamsölunnar á árunum 2005-2008. Guðbrandur er með B.Sc. próf í matvælafræði frá Háskóla Íslands og MBA próf frá Edinborgarháskóla.

Fráfarandi framkvæmdastjóri félagsins Haukur Skúlason leiddi sameiningu félagsins við Plastgerð Suðurnesja á síðasta ári og uppbyggingu á nýrri öflugri verksmiðju fyrir frauðkassa á Ásbrú í Reykjanesbæ sem tók nýlega til starfa.

Borgarplast framleiðir fiskikör, frauðkassa fyrir ferskan fisk og lax, frauðeinangrun og ýmsar fráveitulausnir á borð við brunna, olíuskiljur og rotþrær. Á Völuteigi 31 í Mosfellsbæ rekur Borgarplast hverfisteypu fyrir fiskikör og svipaðar vörur þar sem er einnig aðalskrifstofa félagsins. Hjá félaginu starfa 38 starfsmenn.

Guðbrandur segir Borgarplast vera spennandi fyrirtæki með rekstur sem hvíli á traustum og gömlum grunni. „Félagið hefur mörg góð tækifæri til að sækja fram og stækka. Umhverfismál munu móta rekstur félagsins í framtíðinni eins og allra annarra umbúðafyrirtækja en félagið er í dag að endurvinna frauð og hyggst auka endurvinnslu af slíku tagi,“ segir Guðbrandur.

„Ný og öflug frauðverksmiðja á Ásbrú gerir okkur kleift að þjóna betur framleiðendum á ferskum fiski og laxi, hvoru tveggja greinar sem eru í mikilli sókn. Félagið býr að góðu starfsfólki sem hefur langa og góða reynslu í að framleiða lausnir sem henta aðstæðum á Íslandi og erlendis og þjóna viðskiptavinum þess. Stærsta eigandi Borgarplasts er framtakssjóður í umsjá Alfa sem er öflugur bakhjarl fyrir félagið og þau verkefni sem það stendur frammi fyrir í dag.“