Í október á síðasta ári sameinuðust fyrirtækin Congress Reykjavík og Practical í nýtt fyrirtæki undir nafninu CP Reykjavík sem mun veita þjónustu tengda ráðstefnu, fundum, viðburðum og hvataferðum.

Practical var stofnað árið 2004 og sinnti margvíslegri viðburðaþjónustu fyrir fjölbreyttan hóp viðskiptavina. Þá sá fyrirtækið um ýmis konar skemmtiferðir, hvataferðir, vinnuferðir ásamt sérferðum bæði innan lands og utan. Reynsla starfsmanna Congress Reykjavík í skipulagningu ráðstefnu, funda og þinga spannar yfir 25 ár en fyrirtækið var stofnað árið 2000 og hefur verið leiðandi á sínu sviði síðan þá.

Fleiri ferðamenn, fleiri verkefni

Helsta ástæðan fyrir sameiningu fyrirtækjanna tveggja að sögn Marínar Magnúsdóttur og Láru B. Pétursdóttur, sem eru stofnendur fyrirtækisins og eigendur ásamt Jóni Karli Ólafssyni, er aukin sókn í ferðaþjónustunni síðustu ár.

„Þessi vöxtur hefur kallað á umræðu um uppbyggingu í ferðaþjónustu, þannig að við getum áfram tekið við fleiri gestum hingað til lands. Það er trú okkar að fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfi að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og þau þurfi að stækka og eflast til að geta tekið við fleiri, stærri og meira ögrandi verkefnum,“ segir Marín.

Það verður því nóg um að vera hjá hinu nýstofnaða fyrirtæki en reynsla Congress Reykjavík og Practical er nokkuð umfangsmikil. „Við skipuleggjum allt frá litlum teymisfundum inn í helli, þar sem gestir njóta ljúffengra veitinga með kertaljósi og harmonikkuspili, upp í mörg hundruð manna hvataferðir, yfir þúsund manna árshátíðir og/eða ráðstefnur,“ segir Marín.

Nánar er fjallað um málið í Fundum og ráðstefnum, sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .