Heimir Fannar Gunnlaugsson hefur verið ráðinn til Advania hvar hann mun gegna starfi framkvæmdastjóra viðskiptalausna. Undanfarin átta ár hefur Heimir starfað hjá Microsoft. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Forveri Heimis í starfi er Einar Þórarinsson en hann mun halda áfram að starfa hjá félaginu auk þess að vera eftirmanni sínum innan handar til að byrja með. Undanfarin tvö ár hefur hinn nýi framkvæmdastjóri aðstoðað alþjóðleg fyrirtæki við að brúka lausnir Microsoft en þar áður hafði hann stýrt skrifstofu Microsoft á Íslandi.

„Ég hlakka mikið til að kynnast betur samstarfsfólki hjá Advania og miðla af reynslu minni. Ég veit að Advania gerir frábæra hluti bæði á Íslandi og Norðurlöndum og ég vona innilega að ég geti hjálpað til á þeirri vegferð. Ég veit að Advania hefur verið í lykilhlutverki í stafrænni umbyltingu íslenskra fyrirtækja og ég vona að reynsla mín nýtist til að halda því áfram,“ er haft eftir Heimi í tilkynningunni.

„Það er mikill styrkur að fá Heimi í lið með okkur. Hann býr yfir tengslaneti, þekkingu og reynslu sem styrkir þjónustu okkar. Tæknin virðir engin landamæri og þess vegna held ég að reynsla Heimis af Microsoft gagnist okkar viðskiptavinum gríðarlega mikið. Einari Þórarinssyni þökkum við frábært starf. Hann hefur, ásamt teymi viðskiptalausna, lyft grettistaki í að skýjavæða lausnir okkar og efla þjónustuna,“ segir Ægir Már Þórisson forstjóri Advania.