Átta nemendur kanadíska háskólans University of Alberta komu til Íslands ásamt kennurum og tóku þátt í hraðnámskeiðinu „Nýsköpun og stofnun fyrirtækja“ í vor. Háskólinn í Alberta er einn sá allra stærsti í Kanada, með yfir 35.000 nemendur, og voru kennararnir svo hrifnir af námskeiðinu hjá HR að þeir hyggjast fara af stað með sambærilegt námskeið í eigin háskóla.

Námskeiðið gengur í stuttu máli út á að búa til viðskiptahugmynd og gera viðskiptaáætlun, sem síðan er kynnt í skólanum að loknum þremur vikum. Í raun má segja að alger tilviljun hafi ráðið því að kanadíski háskólinn heyrði af þessu námskeiði, en forseti tölvunarfræðideildar skólans var staddur í HR til að kanna grundvöll fyrir hugsanlegu samstarfi skólanna.

„Ég var staddur hérna fyrir ári og varð fyrir tilviljun vitni að lokaspretti námskeiðsins. Mér fannst þetta svo áhugaverð hugmynd og svo mikil orka í hópnum að ég hugsaði með mér að við ættum að reyna að gera eitthvað svipað heima í Alberta. Þess vegna komum við hingað til að kynnast þessu nánar,“ segir Mario A. Nascimento, prófessor og forseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Alberta.

Tilkomumikið frumkvöðlaumhverfi

Michael G. Lipsett, prófessor við verkfræðideild skólans, segir kanadísku nemendurna hafa notið góðs af því að vera dreift á mismunandi lið í námskeiðinu í stað þess að vera saman í eigin liði. Þá er hann jafnframt mjög þakklátur Háskólanum í Reykjavík fyrir að hafa haldið námskeiðið á ensku.

„Þetta var mjög heillandi og flott námskeið sem við höfum lært mikið af. Við erum fullir tilhlökkunar að taka þetta með okkur heim til Kanada og fara af stað með okkar eigin útgáfu af þessu frumkvöðlanámskeiði, og halda áfram að starfa með Háskólanum í Reykjavík,“ segir Lipsett. Hann telur að námskeið sem þetta eigi sannarlega erindi í Kanada, því þrátt fyrir stærð landsins sé fólksfjöldinn ekki mikill og landið dreifbýlt.

„Við sáum það líka hér hverjir kostirnir eru við að hafa svona hraðnámskeið þar sem nemendur þurfa að búa til teymi, vinna saman, koma með viðskiptahugmynd og selja hana á mjög skömmum tíma. Við leitumst alltaf eftir því í Kanada að auka fjölbreytileika hagkerfisins okkar og bæta frumkvöðlaumhverfið, sem er mjög tilkomumikið á Íslandi. Við reynum að læra af íslenska umhverfinu líka,“ bætir hann við.

Nánar er rætt við prófessora Nascimento og Lipsett í nýja tímaritinu Frumkvöðlum. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.