*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 6. júní 2021 20:04

Frá sólinni í Flórída til Emmessís

Hildur Erla Björgvinsdóttir segir þrífast í umbótum, uppbygginu og endurskipulagningu og ætlar að halda áfram að efla rekstur Emmessíss.

Snær Snæbjörnsson
Hildur Erla, framkvæmdastjóri Emmessíss.

Hildur Erla Björgvinsdóttir hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri Emmessíss en hún starfaði áður sem mannauðsstjóri  rekstrarfélagsins 1912 sem eignaðist nýverið félagið að fullu eftir að hafa verið meirihluta eigandi þess frá árinu 2019.

„Emmessís hefur svo sannarlega getað nýtt þau samlegðaráhrif sem fylgir því að vera partur af samstæðu. Þetta er ákveðinn styrkur fyrir Emmessís," segir Hildur Erla, sem kveðst spennt fyrir nýjum verkefnum hjá Emmesís.

„Þetta er frábær áskorun og það er heiður að fá að vinna fyrir Emmessís. Emmessís er frábært fyrirtæki með sextíu ára sögu og hvert einasta mannsbarn á Íslandi þekkir rjómaísinn okkar. Við höfum verið að gera  margt jákvætt síðustu misseri. Við færðum okkur yfir í umhverfisvænar umbúðir, fengum umboð erlendra ístegunda og hófum að framleiða klaka úr íslensku vatni með kaupum okkar á Ísmanninnum," segir Hildur Erla sem stefnir að frekari umbótum í framtíðinni.

„Sem stjórnandi þá þrífst ég í umbótum, uppbyggingu og endurskipulagningu. Ég hef aldrei verið í „status quo" umhverfi. Við ætlum að halda áfram að efla reksturinn en jafnframt að hlúa að vörumerkinu. Svo erum með tiltölulega nýjan hóp öflugra stjórnenda og ætlum að halda áfram að koma metnaðarfullum markmiðum til framkvæmda."

Hún hefur komið víða við á ferli sínum, sem hófst hjá Old Navy í Bandaríkjunum á meðan hún stundaði B.A. nám í sálfræði við Florida International University. „Ég byrjaði sem venjulegur starfsmaður og var komin í fullt starf innan nokkurra vikna og innan hálfs árs var ég gerð að aðstoðarverslunarstjóra. Ég fékk tækifæri til að opna tvær búðir með verslunarstjórateyminu. Þetta eru mjög stórar búðir og í hverri búð eru tugir starfsmanna og þar lærði ég hvernig það er að vera í stóru fyrirtæki. Það var dýrmæt reynsla." Ásamt því að sinna störfum mannauðsstjóra hjá 1912 hafði hún einnig yfirumsjón yfir gæðamálum og sinnti þar ýmsu umbótastarfi. Má þar helst nefna að halda við jafnlaunavottun og koma á vottuðu gæðakerfi sem að byggir á ISO 9001 gæðastaðlinum.

Hildur Erla er gift Snorra Gunnari Steinssyni, sem á og rekur Bílaleigu Reykjavíkur, og saman eiga þau fjögur börn á aldrinum 8 til 26 ára.  „Snorri er ættaður úr Súðavík og við förum oft vestur og náum þar góðri hvíld . Síðan hef ég gaman af líkamsrækt og hef verið að stunda kraftlyftingar undanfarin sex ár og finnst það mjög skemmtilegt."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér