Vilborg Arna Gissurardóttir, sem er betur þekkt er Vilborg pólfari, hefur verið ráðin sölu- og markaðsstjóri Sagafilm.

Vilborg gekk Suðurpólinn árið 2013 og hefur verið þekkt á Íslandi undanfarin ár fyrir afrek sín og samfélagsverkefni. Fyrr í ár ætlaði hún að ganga Everest fjall en lenti í jarðskjálftanum í Nepal og þurfti að hætta við.

Vilborg tekur við starfinu af Öldu Karen Hjaltalín sem hyggur á nám í Háskóla Íslands haust. Er hún spennt fyrir nýja starfinu.

„Ég hlakka til að ganga til liðs við öflugt og skapandi starfsfólk Sagafilm og takast á við ný og krefjandi verkefni,“ segir Vilborg.

Vilborg er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands og B.A. gráðu í ferðamálafræðum. Vilborg hefur frá árinu 2012 starfað undir sínu eigin vörumerki á sviði fjallamennsku og sem hvatningarfyrirlesari. Hefur hún farið víða um heim með verkefni sín.

Vilborg  hefur víðtæka reynslu í sölu og markaðsmálum auk fjármögnun hinna ýmsu verkefna. Hún hefur  einnig starfað sem stundakennari og unnið að fjölbreyttum ráðgjafaverkefnum.