Kári Gautason hefur verið ráðinn til Bændasamtaka Íslands en hann kemur til samtakanna frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs þar sem hann var framkvæmdastjóri þingflokks. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bændasamtökunum.

Starfið er nýtt og mun Kári koma til með að starfa við úrvinnslu og greiningu hagtalna landbúnaðarins, ásamt því að koma að hagrænum greiningum sem tengjast umhverfis-, loftlagsmálum, fæðuöryggi og tryggingamálum.

Kári er uppalinn í Engihlíð í Vopnafirði. Síðastliðin þrjú ár hefur Kári starfað á Alþingi en þar áður var hann í sérverkefnum hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) við endurmat á ræktunarstarfi í mjólkurframleiðslu. Kári hefur einnig reynslu af búskap úr Vopnafirði, en þar vann hann við loðdýrarækt og mjólkurframleiðslu, samhliða ráðgjafastarfi í ræktun og skýrsluhaldi loðdýra hjá RML.

„Mestan part starfsævinnar hef ég starfað við landbúnað, stundað nám í landbúnaði eða ráðgjöf til bænda. Það eru mikil tækifæri en jafnframt áskoranir á næstu árum fyrir íslenska bændur og ég er spenntur að hefja störf fyrir þá,“ segir Kári.

Ásamt því að vera með búvísindagráðu frá Landbúnaðarháskólanum er Kári með meistaragráðu frá Árósarháskóla í Danmörku í búfjárerfðafræði. Lokaverkefni hans snérist um að meta hagrænt gildi þess að taka upp erfðamengisúrval í loðdýrarækt. Kári hefur þegar hafið störf.