Fyrir rúmri viku kvað Evrópska knattspyrnusambandið (UEFA) upp úrskurð þar sem enska knattspyrnuliðinu Manchester City var bönnuð þátttaka í Meistaradeild Evrópu næstu tvö keppnistímabil. Ástæðan er sú að félagið fór á svig við fjárhagsreglur (e. financial fair play (FFP)) sambandsins. Sá sem fletti ofan af misferli félagsins er Portúgali sem undanfarin ár hefur hrellt evrópsk knattspyrnustórveldi.

Í rúmlega áratug hafa knattspyrnuáhugamenn fylgst með uppgangi Man City. Á síðasta degi sumargluggans árið 2008 var kunngjört að Sheikh Mansour, hálfbróðir Khalifa bin Zayed Al Nahyan, forseta Sameinuðu arabísku furstadæmanna (SAF), hefði eignast klúbbinn og ætlaði hann að dæla í það fjármunum með það að marki að gera liðið að stórveldi.

Mansour stóð við stóru orðin, nýtt æfingasvæði var byggt upp og stjörnurnar streymdu til hins nýríka liðs. Áður prýddu nöfn Paul Dickov, Georgios Samaras, Joey Barton, Nedum Onuoha og Darius Vassell treyjur liðsins en skyndilega komu í þeirra stað leikmenn á borð við Carlos Tevez, Mario Balotelli, Yaya Touré, Vincent Kompany og Robinho. Áætlað er að frá 2008 hafi félagið eytt ríflega 1,5 milljörðum breskra punda, kringum 250 milljarðar íslenskra króna á gengi dagsins, í 294 leikmenn en á sama tíma selt fyrir ríflega 400 milljónir punda.

Um svipað leyti og Mansour mætti til Manchester hafði UEFA hafið undirbúning að innleiðingu FFP-reglnanna. Um árabil hafði það viðgengist að félög gætu steypt sér í skuldir og treyst á að eigendur þeirra kæmu með aukið fé í reksturinn eða afskrifuðu eldri fjárveitingar. Reglunum var meðal annars ætlað að bregðast við þeirri þróun en einnig að girða fyrir það að moldríkir eigendur liðanna haldi þeim á floti með greiðslum úr eigin vasa.

Nýtti Etihad sem millilið

Líkt og oft vill verða með slíkar reglur reyna menn að finna leiðir til að komast fram hjá þeim. Það var einmitt tilfellið í máli City. Undanfarin ár hefur flugvélagið Etihad, næststærsta flugfélag SAF á eftir Emirates, verið stærsti styrktaraðili hinna ljósbláu. Merki félagsins hvílir framan á treyjum liðsins og þá ber heimavöllur liðsins, sem og æfingasvæði þess, nú nafn félagsins. Fyrir þetta greiðir Etihad formúgur.

Staðreyndin virðist hins vegar vera sú að Etihad greiðir aðeins brot þeirrar upphæðar. Í viðamiklum gagnaleka – fjöldi skjala er ríflega 80 milljónir eða um tvöfalt stærri en leki sem kenndur er við Panamaskjölin – var meðal annars að finna tölvupóstssamskipti Jorge Chumilas, þáverandi fjármálastjóra Man City. Þar kom fram að fyrir tímabilið 2013-14 skyldi Etihad greiða 65 milljónir punda fyrir samninginn en aðeins átta milljónir kæmu í raun frá félaginu sjálfu. Afgangurinn, 57 milljónir punda, kæmi frá félagi sem Mansour stýrði, Abu Dhabi United Group. Sambærilegt fyrirkomulag var við lýði tímabilið 2015-16.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .