N1 hefur ráðið Reyni Leósson sem nýjan forstöðumann fyrirtækjasviðs. Reynir kemur til N1 frá VÍS þar sem hann hefur undanfarin þrjú ár starfað sem forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar. Greint er frá ráðningu hans í fréttatilkynningu.

„Reynir kemur til starfa með umfangsmikla reynslu og mun bera ábyrgð á því að leiða og þróa þjónustu og sölu til fyrirtækja hjá N1, ásamt því að auka enn frekar alla stafræna þjónustu, enda vex vefverslun okkar hratt  fiskur um hrygg. Reynir er góður liðsauki og fyrirtækjasvið mun eflast verulega við komu hans," segir Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1, í fréttatilkynningu.

„Þetta er gríðarlega skemmtilegt tækifæri hjá öflugu, rótgrónu og spennandi fyrirtæki sem sífellt leitar leiða til að gera enn betur. Framundan eru gríðarleg tækifæri til að halda áfram að vera leiðandi á fyrirtækjamarkaði, enda vörumerkin öflug, starfsfólkið gott og samskiptin við viðskiptavini náin og sterk. Sóknartækifærin eru fjölmörg og ég nefni raforkusölu sem dæmi. Ég hlakka til að takast á við spennandi verkefni hjá N1," er haft eftir Reyni Leóssyni, verðandi forstöðumanni fyrirtækjasviðs N1.

Skagamaðurinn Reynir hefur eins og áður sagði mikla reynslu af sölu og þjónustu á fyrirtækjamarkaði, en auk þess að leiða fyrirtækjaráðgjöf VÍS, hefur hann sinnt starfi forstöðumanns fyrirtækjasölu Vodafone og verið framkvæmdastjóri auglýsinga hjá Sagafilm. Reynir er með B.ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Hann er giftur Katrínu Rós Baldursdóttur, sem vinnur í ferlastýringu hjá Össuri hf. og eiga þau tvo drengi.

Reyni hefur einnig brugðið fyrir með reglubundnum hætti á sjónvarpsskjám landsmanna, en hann hefur um nokkurra ára skeið starfað sem knattspyrnuspekingur í hinum ýmsu þáttum þar sem fjallað er um kappleiki í knattspyrnu. Á árum áður lék Reynir knattspyrnu með meistaraflokki uppeldisfélagsins ÍA þar sem hann varð m.a. Íslandsmeistari árið 2001, áður en hann hélt út í atvinnumennsku með sænska liðinu Trelleborg. Eftir að hafa snúið aftur til Íslands spilaði hann með Fram, Val og ÍA á nýjan leik en lék síðasta tímabil sitt á ferlinum með Víkingi R. sumarið 2012.