Á föstudaginn síðastliðinn var samþykkt fyrsta breyting á áfengislöggjöfinni í þrjátíu og þrjú ár, þegar bjórinn var leyfður árið 1989. Með breytingunni má selja áfengi á framleiðslustað, lögin taka gildi um næstu mánaðarmót.

Dagbjartur Arilíusson hjá Steðja brugghúsi segir að frumvarpið sé óvænt ánægja, sem þau hafi alls ekki átt von á. „að sjálfsögðu eru þetta frábær fyrstu skref.“

Dagbjartur segir að löggjöfin sé að einhverju leyti enn óskýr og að þau viti á þessu stigi ekki enn að fullu hvað löggjöfin þýðir. „Við þurfum að sjá hvernig málin þróast, hvað þetta þýðir nákvæmlega, hvað við megum gera og hvað við svo gerum.“

"Línan rosalega óljós"

Undanfarin ár hefur Steðji brugghús boðið upp á bjór frá brugghúsinu í heimsendingu beint frá framleiðslustað. Í október 2020 var Dagbjartur kallaður í skýrslutöku hjá lögreglunni vegna þessa, og hefur verið undir rannsókn síðan þá. Enn hefur ekki verið verið gefin út ákæra vegna þessa.

Lögreglan hefur til þessa ekkert aðhafst vegna heimsendingarþjónustu Steðja „Lögreglan hefur hingað til ekki aðhafst formlega að þessu, enda er línan rosalega óljós.“

Samkvæmt frumvarpinu má aðeins selja eina kippu í einu. Dagbjartur segir að það verði sennilega erfitt að framfylgja þessu.

„Það verða einhverjar takmarkanir á þessu, en ég sé ekki fyrir mér hvernig á að framfylgja því. En þessi litla breyting er frábært fyrsta skref.“