„Það er frábært að fá tækifæri til þess að vinna með jafn hæfileikaríku fólki og samheldu liði," segir Michael Philipp, forstjóri fjárfestingarsjóðsins Ambata Capital Partners, í tilkynningu um samstarf sjóðsins með Reykjavik Geothermal (RG) á sviði jarðhitaverkefna víðs vegar um heiminn.

Ambata hefur gert samning við RG, sem stýrt er af Guðmundi Þóroddssyni, fyrrverandi forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, um að eignast verulegan hluta í félaginu auk þess að fjármagna ýmis verkefni félagsins, út næsta ár, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Ambata mun þó ekki eignast meirihluta í félaginu, að sögn Guðmundar.

„Þetta er mikilvægur samningur og sýnir, öðru fremur, að það er mikil eftirspurn eftir okkar þekkingu," sagði Guðmundur í samtali við Viðskiptablaðið en hann er nú staddur í Abu Dhabi á ráðstefnunni World Future Energy Summit.

Michael Philipp er stofnandi Ambata en hann hefur m.a. starfað sem yfirmaður Credit Suisse bankans í Evrópu og yfirmaður eignastýringar Deutsche Bank. Ekki fæst uppgefið um hversu stóra fjárfestingu er að ræða.

RG mun koma upp höfuðstöðvum í Masdar borg vegna verkefna í Mið-Austurlöndum, og vinna þar að jarðhitaverkefnum. Mikill áhugi er á því að virkja jarðhitann á fyrrnefndu svæði en talið er að tækifærin til slíks séu gríðarlega mikil, þar sem virkjun jarðhita er skammt á veg komin á þessum svæðum.

Innan RG starfa sérfræðingar á sviði jarðhita sem margir hverjir voru áður starfsmenn Reykjavík Engergy Invest (REI), dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur. Starfsmenn fyrirtækisins í dag eru Grímur Björnsson, Gestur Gíslason, Gunnar Örn Gunnarsson, Magnús Ásbjörnsson, Þorleifur Finnsson og Vilhjálmur Skúlason.