*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 16. mars 2021 15:00

Fractal 5 sækir þrjár milljónir dala

Menlo Ventures meðal fjárfesta í Fractal 5, sem er að þróa nýjan hugbúnað á sviði samskiptatækni.

Ritstjórn
Björgvin Guðmundsson, Kristján Ingi Mikaelsson, Sara Másdóttir og Guðmundur Hafsteinsson, starfsmenn Fractal 5.
Aðsend mynd

Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Menlo Ventures hefur fjárfest í Fractal 5, sem er að þróa nýjan hugbúnað á sviði samskiptatækni. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu og segir þar að Menlo sé meðal framsæknustu vísissjóða heims með aðsetur í Kaliforníu í Bandaríkjunum og hafi verið starfræktur í meira en 40 ár. Sjóðurinn leiði fjárfestinguna og sest fulltrúi hans í stjórn, en meðal annarra fjárfesta sé íslenski fjárfestingasjóðurinn Crowberry Capital. Heildarfjárfestingin nemi 3 milljónum Bandaríkjadala.

Forstjóri og stofnandi Fractal 5 er Guðmundur Hafsteinsson. Hann hefur langa starfsreynslu í tæknigeiranum og vann meðal annars í 15 ár í Bandaríkjunum. Síðast var hann yfirmaður vöruþróunar hjá Google til 2019 þegar hann flutti aftur heim til Íslands. Þar áður leiddi Guðmundur þróunarvinnu hjá ýmsum fyrirtækjum, þar á meðal Apple, og eins fyrirtækjum sem hann stofnaði sjálfur og voru síðar yfirtekin.

Fractal 5 var stofnað árið 2020 og þar starfa nú fjórir starfsmenn. Búist er við að fjölga starfsfólki á næstunni eftir því sem vöruþróuninni vindur fram og verkefnum fjölgar. Skipulag teymisins byggir á þeirri hugmyndafræði að hægt sé að ráða fólk hvar sem er í heiminum þar sem ekki sé um neinar eiginlegar höfuðstöðvar að ræða. Fljótlega fer frumútgáfa af lausn Fractal 5 í prófanir, en hún felur í sér tækni til að auðvelda fólki að eiga í samskiptum við einstaklinga og hópa sem það vill rækta samband við.

Meðstofnandi Guðmundar í Fractal 5 er Björgvin Guðmundsson. Í um 13 ár starfaði hann í fjölmiðlum á Íslandi, síðast sem ritstjóri Viðskiptablaðsins. Í byrjun 2014 keypti hann ásamt fleirum KOM ráðgjöf og starfaði þar sem ráðgjafi fram til ársins 2020. Þá lét hann af daglegum störfum fyrir KOM og tók við sem stjórnarformaður fyrirtækisins.

Ásamt Guðmundi og Björgvin starfa Sara Björk Másdóttir og Kristján Ingi Mikaelsson hjá Fractal 5. Sara flutti frá Kísildalnum í Kaliforníu í ágúst 2020 og hóf þá strax störf hjá fyrirtækinu. Í Bandaríkjunum vann hún við hugbúnaðarþróun hjá þarlendu fyrirtæki með milligöngu samtaka sem ryðja leið fyrir efnilega forritara inn á vinnumarkað þar sem samkeppnin er mikil. Sara hefur lengi tengst vettvangi íslenskra frumkvöðla og er einn stofnandi Reboot Hack, sem er fyrsta nemendadrifna hakkaþonið á Íslandi.

Kristján Ingi er fyrrverandi framkvæmdastjóri Rafmyntaráðs Íslands eftir að hafa gegnt því starfi frá 2018. Hann hefur tekið virkan þátt í frumkvöðlastarfi á Íslandi í gegnum árin, bæði að eigin frumkvæði og í samstarfi við aðra. Kristján hefur verið leiðandi í hópi íslenskra forritara, opnað nýjar leiðir við öflun og úrvinnslu gagna og virkjað samráð og umræður í samfélagi forritara með ráðstefnu- og fundahaldi. Eins og Sara starfaði hann um tíma í Kísildalnum þar sem hann rak eigið fyrirtæki.