Tæknigeirinn hefur ekki frekar en aðrar greinar reynst vera ónæmur fyrir efnahagsóróa undanfarinna ára, enda má segja að snjallsímabyltingin hafi náð mettun í hinum vestræna heimi og sóknarfærin nú helst í þróunarheiminum, sem er mun næmari fyrir verði og eftir minni arði að slægjast en áður.

Það hefur hins vegar orðið enn frekari hvatning til nýrra afreka, til þess að verða fyrstir með næstu tæknibyltingu, líkt og stóraukin útgjöld helstu tæknirisa til rannsókna og þróunar gefa til kynna. Þar binda menn miklar vonir við framfarir í gervigreind, vélvirkni og öðru slíku, sem heita má afsprengi snjallsímabyltingarinnar. Hér og nú er það hins vegar 5G-tæknin, sem menn stóla á að endurveki sölu snjallsíma og ýmissar tækni annarrar, sem getur fært sér kosti hennar í nyt.

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir helstu kaupmessur og ráðstefnur á sviði tækni, tölva og fjarskipta. Þær eru raunar margar einnig með menningu og samfélag á jaðrinum, enda hefur tæknibyltingin umbreytt sjálfri þjóðfélagsgerðinni og nóg eftir.

Ráðlegt er að panta snemma. Ekki vegna þess að það verði alltaf uppselt, en bestu hótelin, bílaleigubílar og ráðstefnusætin fara fljótt, að ógleymdum ýmsum jaðarviðburðum og netagerðarsamkvæmum, sem oft eru ekki síður gefandi en aðaldagskráin. Það er þar sem menn mynda tengslin.

MWC 2020
Mobile World Congress í Barcelona 24.–27. Febrúar
Hámessa snjallsímatækninnar, þar sem um 100.000 spá í framtíðina og allir helstu símaframleiðendur nema Apple sýna nýjustu undrin. Að þessu sinni verða 5G og gervigreind í brennidepli.
mobileworldcongress.com

SXSW
South by Southwest í Austin 13.-22. Mars
SXSW er ekki síður útihátíð en ráðstefna í einhverri bestu partíborg í heimi, þar sem mörkin milli tækni, kvikmyndaiðnaðar, gagnvirkra miðla og tónlistar eru harla óljós. Meira en 2.000 listamenn munu koma þar fram, en á ráðstefnunni tala meistarar á borð við Roger Waters, Kim Gordon, Curtis 50 Cent Jackson, Laurene Powell Jobs, Steve Colbert, Bruce Sterling og Jack Dorsey.
sxsw.com

Hannover Messe
Hannover Messe í Hannover 20.-24. Apríl
CeBIT er runnin inn í Hannover Messe og í ár er þemað umbreytingar í tækniiðnaði. Um 6.000 fyrirtæki verða þar með bása og á ráðstefnunni eru 80 brautir.
hannovermesse.de

London Tech Week
London Technology Week í Lundúnum 8.-12. júní
Tæknivikan í Lundúnum er samansafn meira en 300 viðburða og fer fram um alla borg, mest þó í námunda við Silíkon-hringtorgið svonefnda við Old Street. Gert er ráð fyrir ríflega 60.000 þátttakendum frá 100 löndum, þar sem tækni, gervigreind og heilsa verða meðal helstu efna.
londontechweek.com

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Fundir & ráðstefnur. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .