Almennt er heimilt að draga vaxtagreiðslur fyrirtækja frá tekjuskatti þeirra og á það einnig við um greiðslur af lánum til fyrirtækja innan sömu samstæðu, að sögn Gunnars Egils Egilssonar, sérfræðings í skattarétti hjá Nordik lögfræðiþjónustu.

„Hér eru engin lög sem banna slíkan frádrátt að því gefnu náttúrlega að lánið sé á armslengdarkjörum, þ.e. vextir og önnur kjör séu sambærileg við það sem almennt tíðkast á lánamörkuðum í samskonar viðskiptum. Íslensk lög heimila ekki gjaldfærslu ef um er að gervilán og yfirvöld geta brugðist við ef lánakjör eru mjög frábrugðin kjörum á sambærilegum lánum og hafnað gjaldfærslu. Ef um slíkt er að ræða hjá íslensku fyrirtæki þá ná núgildandi lög utan um það,“ segir Gunnar Egill.

Eva Joly, fyrrverandi ráðgjafi sérstak saksóknara, sagði í samtali við Kastljósið á þriðjudag að bannað væri „að nota glufur í skattalögum líkt og Alcoa gerir til að koma hagnaði undan skatti á Íslandi með gervilánum“.

Forstjóri Alcoa fjarðaáls hefur sagt ásakanir Joly fráleitar og segir að skuld Alcoa fjarðaáls sé til komin vegna mjög hás stofnkostnaðar álversins. Sagði hann í samtali við RÚV að vextir lánsins væru mjög hagstæðir. Um væri að ræða LIBOR vexti að viðbættu álagi sem væri reiknað af Deutsche Bank og að í fyrra hefðu vextirnir verið innan við 1%. Því væri fráleitt að halda því fram að verið væri að færa fjármuni frá landinu í gegnum háar vaxtagreiðslur.