Háskóli Íslands hyggst kenna Evrópufræði, sem undirbýr nemendur undir hvers kyns störf sem krefjast fræðilegrar jafnt sem hagnýtrar þekkingar á Evrópu nútímans.

Evrópa er stærsta markaðssvæði Íslands og er því skilningur á öllu regluverki Evrópusambandsins og umgjörð þess því brýnt hagsmunamál fyrir fjölda aðila á Íslandi.

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði og umsjónarmaður námsins, segir Háskóla Íslands vera að svara kalli samfélagsins eftir menntun á sviði Evrópumála. „Ísland er í svo miklum samskiptum við Evrópuríki og Evrópusambandið, sérstaklega í gegnum aðild okkar að EES og Schengen.“

Baldur segir fjölda fólks vinna að Evrópumálum, eins og í stjórnsýslunni, í fyrirtækjum og hjá hagsmunasamtökum. „Í vaxandi mæli eru menn að sinna betur Evrópumálum. Við erum smám saman að átta okkur á mikilvægi þeirra og hvað Evrópusamvinnan skiptir okkur miklu máli.“

Evrópufræði
Evrópufræði
© vb.is (vb.is)
Í náminu gefst kostur á að kafa dýpra í samvinnu Evrópuríkja, af hverju ríki velja að standa innan og utan sambandsins og hvernig hægt er að hafa áhrif á sambandið.

Nám í Evrópufræðum býr nemendur undir hvers kyns störf sem krefjast fræðilegrar jafnt sem hagnýtrar þekkingar á Evrópusamrunanum, stofnunum Evrópusambandsins og ákvarðanatöku innan þess, alþjóðasamskiptum almennt og stöðu Íslands bæði almennt í alþjóðasamfélaginu og hvað varðar Evrópu.

Kennarar eru sérfræðingar í innviðum, regluverki og ákvarðanatöku Evrópusambandsins, öryggismálum Evrópu og stöðu Íslands í þessu samhengi. Í námi í Evrópufræðum er hvort tveggja boðið upp á meistaranám og diplómanám.