Samkeppniseftirlitið kynnti í dag til leiks fyrsta af þremur fræðslumyndböndum sem ætlað er að varpa ljósi á samkeppnismál á myndrænan og einfaldan hátt.

Myndböndin eru ætluð fólki á öllum aldri sem hafa áhuga á að kynna sér samkeppnislögin, þýðingu virkrar samkeppni og hlutverk Samkeppniseftirlitsins. Myndböndin verða aðgengileg bæði á vefsíðu stofnunarinnar en einnig á Facebook og Youtube síðum sem stofnunin rekur.

Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu kemur fram að útgáfa fræðslumyndbandanna sé „í takti við þann vilja löggjafans að efla hlutverk Samkeppniseftirlitsins sem málsvara fyrir samkeppnislögin og öfluga samkeppni“.

Myndband dagsins fjallar á almennan hátt um samkeppnislögin. Hægt er að horfa á myndbandið í glugganum hér að neðan.