Hin umdeilda og vel klædda söngkona Lady GaGa átti sviðið í Bandaríkjunum á síðasta ári. Önnur breiðskífa hennar, sem ber heitið The Fame Monster, seldist í 5,8 milljónum eintaka og gerði enginn betur. Listanafn söngkonunnar verður að teljast lýsandi en síðan hún steig fram í sviðsljósið hefur útlit og framkoma hneykslað margt prúðmennið. Af Lady GaGa má þó ekki taka að innstæða er fyrir frægðinni. Þar tala toppsætin á vinsældarlistum og verðlaun og tilnefningar sínu máli.

Edrú Eminem selur

Rapparinn Eminem seldi næstmest allra í Bandaríkjunum á síðasta ári, litlu minna en Lady GaGa. Rapparinn hefur verið ein skærasta poppstjarna heims í mörg ár, allt frá því að hann gaf út sína fyrstu plötu árið 1999. Þá var Eminem ungur, reiður maður. Hann, líkt og margir aðrir, tók líf tónlistarmannsins alla leið og svo fór að nýjasta plata kappans heitir Recovery. Í nýlegum þætti af 60 mínútum ræddi Eminem fíkn sína á lyfseðilskyldu lyfi sem nærri leiddi hann til dauða.

Bieber-hiti

Vonir standa til að sá er vermir þriðja sæti listans þræði ekki sömu braut og Eminem. Hinn kanadíski Justin Bieber er kornungur, fæddur árið 1994, og öðlaðist skjótt frægð fyrir um tveimur árum með hjálp YouTube. Svo til hver einasta unglingsstúlka í Norður-Ameríku, og raunar víðar, elskar drenginn útaf lífinu og dreymir um farsælt líf með honum. Þangað til sá draumur rætist láta þær plaggöt, tónleika og geisladiska (5,6 milljónir geisladiska!) duga. Ef eitthvað eitt einkenndi poppbransann vestanhafs árið 2010 þá er óhætt að tala um Bieber fever .

Popp og kántrý

Listi yfir mest seldu plötur síðasta árs er vel poppaður og kemur ekki á óvart. Kántrý-tónlist á einnig sína fulltrúa og er Tennesseesveitin Lady Antebellum í 4. sætinu. Nýliði ársins hlýtur að teljast hin skoska Susan Boyle. Ábreiða hennar á laginu I dreamed a dream í raunveruleikaþættinum Britain’s Got Talent leiddi til 3 milljóna seldra eintaka á síðasta ári.

Topp Tíu 2010:

1. Lady GaGa – The Fame Monster– 5,8 milljónir

2. Eminem – Recovery – 5,7 milljónir

3. Justin Bieber – My Worlds – 5,6 milljónir

4. Lady Antebellum – Need You Now – 3,6 milljónir

5. Taylor Swift – Speak Now – 3,5 milljónir

6. Susan Boyle – The Gift – 3,0 milljónir

7. Black Eyed Peas – The E.N.D. – 3,0 milljónir

8. Michael Bublé – Crazy Love– 3,0 milljónir

9. Sadé – Soldier Of Love – 2,3 milljónir

10. Alicia Keys – The Element Of Freedom – 2,3 milljónir