Það fer ekki fram hjá Íslendingum sem eiga leið um hinn fræga fiskmarkað Pike Place Fish Market í Seattle að hinir fjallhressu fisksalar sem þar vinna eru allir klæddir í 66°Norður sjófatnað. Pike Place Fish Market er eitt af helstu kennileitum Seattle og einn fjölsóttasti staður borgarinnar en alls koma þangað mörg þúsund manns á hverjum degi, þar með talið fjöldi ferðamanna.

Það er mikill galsi í fisksölunum á Pike Place Fish Market þar sem þeir kasta iðulega á milli sín fiski með miklum tilþrifum viðskiptavinum til ómældar ánægju. Þegar fiskurinn hefur fengið nokkrar flugferðir hjá köppunum er honum pakkað inn fyrir viðskiptavini. Það er óborgarnleg stemmning sem skapast á fiskmarkaðnum og þessi miklu tilþrif fisksalanna ásamt úrvals fiski gerir staðinn gríðarlega vinsælan. Og eftirtektarvert er að sjá þessa frægu fisksala klædda í íslenskan sjófatnað.

Pike Place Fish Market var stofnaður árið 1930 og hefur komið við sögu í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta m.a. Frasier enda eins og áður segir eitt þekktasta kennileiti Seattle.