Svo virðist sem mörgum aðilum hafi verið bætt í hóp á samfélagsvefnum Facebook að þeim forspurðum. Viðskiptablaðið greindi frá því í gærkvöldi að um miðjan dag í gær hefði verið stofnaður hópur undir yfirskriftinni „ Betri valkost á Bessastaði “ en sem kunnugt er tilkynnti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í dag að hann hygðist gefa kost á sér áfram, fimmta kjörtímabilið í röð.

Í lýsingu á hópnum kemur fram að meðlimir hans vilji „betri valkost í næsta forsetakjöri“ og að hópurinn hafi verið stofnaður til að ræða það.

Meðlimum hópsins fjölgaði hratt í gær og voru komnir yfir 1.000 undir miðnætti. Þegar þetta er skrifað, um hádegi á mánudegi, eru meðlimir hans um 1.320. Þar á meðal eru margir þjóðþekktir einstaklingar, s.s. þingmenn og borgarfulltrúar, blaðamann og sjónvarpsmenn, leikarar, rithöfundar og margir fleiri.

Eins og fram kom í frétt Viðskiptablaðsins í gærkvöldi geta stjórnendur hópsins skráð einstaklinga í hópinn að þeim forspurðum. Þá er einnig hægt að biðja um aðgang að hópnum.

Nokkrir einstaklingar hafa haft samband við Viðskiptablaðið og upplýst að þeir hafi ekki gerst aðilar að hópnum af sjálfsdáðum heldur hafi stjórnendur eða aðrir meðlimir hópsins bætt þeim í hann. Þá hafa nokkur nöfn þeirra sem skráðir voru í hópinn í gær horfið af listanum í dag.

Þannig var t.a.m. Guðmundi Andra Thorssyni, rithöfundi og dálkahöfundi hjá Fréttablaðinu, bætt í hópinn án sinnar vitundar. Guðmundur Andri er sem kunnugt er bróðir Örnólfs Thorssonar, forsetaritara. Þá hafði Árna Páli Árnasyni, þingmanni Samfylkingarinnar og fyrrv. ráðherra jafnframt verið bætt í hópinn að sér forspurðum. Hann hefur í morgun skráð sig úr hópnum. Hið sama má segja um sjónvarpsmennina Helga Seljan og Egil Helgason sem báðir starfa hjá RÚV.

Uppfært kl.15.00 - Atlli Þór Fanndal, blaðamður á DV, hefur í athugasemd til Viðskiptablaðsins komið því á framfæri að honum hafi verið bættí hópinn að sér forspurðum. Honum hafi í morgun gefist kostur á að láta fjarlægja sig úr hópnum en hafi þó kosið að vera áfram í honum til að fylgjast með umræðunni í hópnum.

„Ég nýti mér Facebook gríðarlega mikið til að fylgjast með umræðu ýmissa stjórnmálaflokka og manna. Þannig er ég vinur Framsóknar í Fjarðabyggð, læt mér líka við Heimssýn og tilheyri hóp þar sem stuðningsfólk ríkisstjórnarinnar ræðir saman auk þess að hafa verið bætt í hóp Frjálslyndra Jafnaðarmanna. Slíkt gefur ekki mynd af mínum skoðunum," segir Atli Þór.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda og fulltrúi í stjórnlagaráði, er einn af stjórnendum hópsins (e. admin). Aðrir stjórnendur eru Ingibjörg Hinriksdóttir, Ingibjörg Stefánsdóttir og Svala Jónsdóttir.