Einn frægasti fjárhættuspilari Bandaríkjanna, Anargyros Karabourniotis - betur þekktur sem Archie Karas, hefur verið settur í ævilangt bann í öllum spilavítum í Las Vegas fyrir að hafa ítrekað svindlað í spilavítum um öll Bandaríkin. Er greint frá þessu á fréttasíðunni Pokernews .

Karas skaust upp á stjörnuhiminn fjárhættuspilaranna þegar hann breytti fimmtíu dölum í ríflega fjörutíu milljónir dala á tímabilinu 1992 til 1994. Hann vann nokkra af bestu pókerspilurum heims, þar á meðal Chip Reese, Doyle Brunson og Stu Ungar. Hann mun svo hafa tapað öllu fénu aftur á næstu tveimur árum. Alls vann Karas um 205 milljónir dala í pókermótum á ferlinum og vann peningaverðlaun í sjö skipti í heimsmeistaramótinu í póker.

Svarta bókin svokallaða er listi sem yfirvöld í Nevada hafa tekið saman um einstaklinga sem gerst hafa ítrekað brotlegir við reglur spilavíta eða hafa tengsl við skipulagða glæpastarfsemi. Þeim sem á listanum eru er bannað er að stíga fæti inn í nokkuð spilavíti í ríkinu að viðlagðri fangelsisrefsingu. Aðeins þrjátíu og þrjú nöfn eru á listanum og er Karas nýjasti meðlimur þessa vafasama klúbbs.

Í frétt Pokernews segir að Karas hafi verið bætt á listann fyrir fjölda brota, en hann var t.a.m. handtekinn í september 2013 fyrir að svindla í spilinu 21 í spilavíti í San Diego. Þar áður hafði hann verið handtekinn fjórum sinnum í Nevada fyrir að svindla í sama spili.