Sjeik Talal Bin Abdulaziz Bin Ahmed Al Abdulla Al Thani, sonur fyrrverandi ráðherra heilbrigðismála í olíuríkinu Katar, eru sagður hafa gefið út gúmmítékka fyrir gistingu á svítum á lúxushóteli í Chelsea-hverfinu í London. Herbergin voru fjórtán talsins undir konur hans tvær og gesti þeirra. Í breska götublaðinu Sun er tekið fram að næturgistingin á einu af herbergi hafi kostað 3.500 pund, jafnvirði tæpra 700 þúsund króna. Maðurinn tók svítuna á leigu í eitt og hálft ár og nam heildarkostnaðurinn tæpum 582 þúsund pundum, jafnvirði 114 milljóna króna.

sjeik Mohammed bin Khalifa Al-Thani
sjeik Mohammed bin Khalifa Al-Thani

Maðurinn er náfrændi sjeik Mohammed bin Khalifa Al-Thani, sem er til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara vegna kaupa hans á 5% hlut í Kaupþingi.

Götublaðið segir sjeikinn hafa reynt í þrígang að greiða fyrir gistinguna með jafn mörgum ávísunum. Þegar hótelstjórinn hafi reynt að fá þær útleystar hafi hins vegar ekki reynst innstæða fyrir þeim. Blaðið segir hóteleigendann ætla nú í mál gegn sjeikinum til að fá reikninginn greiddan.

Haft er eftir hótelstjóranum að sjeikinn hafi komið vel fyrir og hafi hann lagt mikla áherslu á hverra manna hann hafi verið. Þegar hann hafði fært sönnur á mál sitt hafi allt verið fyrir hann.

Málið er ekki ný til komið en hann yfirgaf London ásamt föruneyti sínu í janúar í hittifyrra.

Þetta mun ekki vera eini reikningurinn sem liggur ógreiddur eftir ferð sjeiksins í London. Hann er jafnframt sagður skulda bílaleigu 24 þúsund pund, um fimm milljónir króna og bílsstjóra 4.500 pund, tæp níu hundruð þúsund.

Frændur í bobba

Eins og áður sagði er sjeik Talal Bin Abdulaziz Bin Ahmed Al Abdulla Al Thani er sonur sjeik Abdulazis Bin Ahmed Al Thani, fyrrverandi heilbrigðismálaráðherra í olíuríkinu Katar. Sá var réttmætur erfingi að veldissprota emíraveldisins. Hann missti hana í hendur bróður sínum í valdahrókeringum í febrúar árið 1972. Í kjölfarið flúði hann til Sádí-Arabíu.

Bróðirinn var sjeik Khalifa bin Hamad bin Abdullah bin Jassim bin Muhammed Al Thani. Sonur emírsins, sem reyndar lést árið 1995, er sjeik Mohammed bin Khalifa Al-Thani, sá er keypti fimm prósenta hlut í Kaupþingi fyrir 26 milljarða króna í lok september árið 2008, örfáum dögum fyrir bankahrun. Mál hans er nú til meðferðar hjá embætti sérstaks saksóknara.