„Nú er allt að fara í gang og því finnst mér þetta ekki rétti tíminn til að kasta stjóranum út. En svona er þetta stundum þegar afkoma og áætlanir ganga ekki eftir,“ segir Guðmundur Gunnarsson, fráfarandi forstjóri Farice.

Greint var frá því fyrir stundu að samkomulag hafi náðst á milli Guðmundar og stjórnar Farice að hann láti af störfum hjá félaginu.

Farice rekur sæstrengina Farice og Danice. Fyrirtækið rambaði á barmi gjaldþrots árið 2009 en fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu sem lauk í fyrra. Við það var skuldum breytt í hlutafé. Helstu hluthafar Farice eru Arion banki, Landsvirkjun, ríkissjóður, Landsbankinn og Glitnis.

Farice tapaði 2,3 milljörðum króna árið 2009 og 2,7 milljörðum króna í fyrra, eða 17 milljónum evra. Guðmundur segir útlit fyrir að tekjur verði sjö milljónir evra í ár sem er verulega undir áætlunum og að tap verði á rekstrinum næstu árin. Hann telur stjórnina hafa gert sér of miklar væntingar í skugga kreppunnar.

Skekkjan skýrist einna helst af því að væntingar um byggingu gagnavera hér hafa dregist. Guðmundur segir þau mál skýrast á næstunni og bendir á að stutt sé í að gagnaver Verne verði ræst.

„Gagnaverin eru eina framtíð félagsins til aukinna tekna. Nú eru hlutirnir að fara í gang og því finnst mér ekki rétt að láta stjórann fara. En það er mín skoðun,“ segir Guðmundur.

Guðmundur mun starfa fyrir félagið þar til eftirmaður hans hefur verið ráðinn.