Roberto Azevêdo, fráfarandi aðalframkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), mun hefja störf hjá PepsiCo í byrjun september. Hann tekur við nýstofnuðu hlutverki innan félagsins þar sem hann mun sinna samskiptum við ríkisstjórnir, eftirlitsaðila og alþjóðlegar stofnanir. Hann mun einnig koma að sjálfbærniverkefnum fyrirtækisins sem snúa að minnkun plastúrgangs, að því er kemur fram í frétt Financial Times .

Azevêdo, sem hafði leitt WTO síðan 2013, greindi frá því í maí að hann myndi segja starfi sínu lausu sem aðalframkvæmdastjóri , ári áður en skipunartímabil hans rynni út. WTO hefur átt í högg að sækja vegna versnandi viðskiptasambands milli Bandaríkjanna og Kína.

Azevêdo hefur þekkt Ramon Laguarta, forstjóra PepsiCo sem tók við af Indra Nooyi í október 2018, í tæplega tvö ár en þeir bjuggu um tíma í sömu götu í svissnesku borginni Genf.

Ráðning Azevêdo er enn eitt dæmið um fjölþjóðafyrirtæki að sækja í fyrrum embættismenn með víðtæk tengslanet. Fyrr í vikunni tilkynnti bandaríski fjárfestingabankinn JPMorgan Chase að Sajid Javid, sem sagði sagði af sér sem fjármálaráðherra Bretlands í febrúar síðastliðnum, myndi hefja störf í evrópskri ráðgjafanefnd bankans, þrátt fyrir að hann væri enn á þingi.