Yfirvöld í Frakklandi hafa bannað sölu á nýjum Mercedes-Benz bifreiðum í landinu. Fyrirtækið segir ástæðuna vera þá að það notast við eldri gerð af efnum í kælibúnað í bifreiðum sínum.

Frá 1 janúar hefur Evrópusambandið bannað notkun á efninu R134a og skulu bílaframleiðendur notast við R1234yf. ESB segir eldra efnið menga of mikið.

Daimler, framleiðandi Mercedes-Benz, fullyrðir að nýja efnið auki eldhættu við árekstur og segist muni notast við eldra efnið þangað til nýtt verði þróað sem öruggt. Framleiðandi efnisins segir það ekki rétt.

Ekkert annað land í Evrópusambandinu en Frakkland  hefur gert athugasemd við ákvörðun Daimler. Evrópusambandið hefur gefið fyrirtækinu og stjórnvöldum í Berlín frest fram til september til að fylgja nýju reglunni.

Pólitísk ákvörðun ?

Það að aðeins frönsk stjórnvöld skuli vera eina ESB landið gangi svo hart fram í málinu er áhugavert.

Franskur bílaiðnaður á í miklum erfiðleikum og forseti Frakklands, sósíalistinn Francois Hollande, hefur sagt að hann muni ganga mjög langt til að vernda bílaiðnaðinn.

Ríkið á 15% hlut í Renault og hefur ábyrgst gríðarlegar fjárhæðir til franskra bílaframleiðenda á síðustu misserum, sérstaklega sameinuðu fyrirtæki Citroen Peugeot.