Franska þingið hefur samþykkt lög sem gera fólki kleift að gefa frídaga sína samstarfsmönnum sem eiga alvarlega veik börn. Þetta kemur fram í frétt á vef Ríkisútvarpsins .

Frumvarpið var lagt fram af Paul Salen, þingmanni hægriflokksins UMP. Það var samþykkt fyrir tveimur árum í neðri deild franska þingsins loks samþykkt í efri deildinni nú í maí. Lögin gera starfsmönnum franskra fyrirtækja í opinberri og einkaeigu kleift að gefa samstarfsmönnum sínum launaða frídaga sína nafnlaust, ef sá starfsmaður þarf að vera frá vinnu til að annast veikt barn.

Lögin komu til eftir að starfsmenn fyrirtækis í kjördæmi Salens tóku sig saman árið 2011 og gáfu alls 170 frídaga til samstarfsmanns síns, sem átti ungan son sem glímdi við krabbamein. Þetta var gert með samþykki forstjóra fyrirtækisins. Þingmenn kommúnista á franska þinginu kusu gegn frumvarpinu, en þeir segja frumvarpið leysa vinnuveitendur undan skyldum sínum við starfsmenn sem eiga veik börn og setji þess í stað ábyrgðina á samstarfsfólkið.

Þá sagðist François Rebsamen vinnumálaráðherra hafa miklar efasemdir um ágæti frumvarpsins, þar sem starfsmenn þyrftu á eigin frídögum að halda, leyfið væri hluti af heilsuvernd þeirra. En Frakkar eru meðal þeirra þjóða sem fá flesta launaða frídaga ári, að minnsta kosti fimm vikur samkvæmt lögum.