Ríkisstjórn Emmanuel Macron, forseta Frakklands, hyggst nú gera nokkuð stórtækar breytingar á vinnulöggjöf í ríkinu sem þekkt er fyrir ósveigjanlegan vinnumarkað og ofríki verkalýðs- og stéttarfélaga. Að sögn nýkjörins forseta vill hann: „Frelsa þá orku sem fyrirfinnst í frönskum vinnumarkaði“. Í viðtali við forsetann sem birtist fyrir skömmu sagði hann að verkefnið gæti reynst þrautinni þyngra, vegna þess að „ Frakkar hata umbætur ,“ að hans sögn.

Í einföldu máli væri hægt að segja að meginbreytingarnar fela það í sér að auðveldara verður fyrir vinnuveitendur að ráða og segja upp starfsmönnum. Forsætisráðherra í ríkisstjórn Macron, Edouard Philippe, sagði við blaðamenn að fyrirhugaðar breytingar væru í senn sanngjarnar. metnaðarfullar og jafnvægar. Ráðgert er að mótmæli hefjist vegna breytinganna í næsta mánuði - en tvö stærstu verkalýðsfélög Frakklands hyggjast ekki taka þátt í mótmælunum. Breytingarnar eru meðal annars gerðar til þess að aðlaða erlenda fjárfesta til Frakklands .

Raunverulegar viðræður áttu sér stað

Að sögn Jean-Claude Mailly, leiðtoga Force Ouvrière (FO), annarra tveggja stóru verkalýðsfélaganna, sagði að „ raunverulegar viðræður “ hafi átt sér stað á milli franskra stjórnvalda og verkalýðsfélagsins og því tæki FO ekki þátt í mótmælunum sem koma til með að hefjast 12. september næstkomandi. Sömu sögu má segja um CFDT, það verkalýðsfélag sem er með flesta félagsmenn í einkageiranum.

Jean-Luc Mélenchon, einn þeirra einstaklinga sem buðu sig fram til forseta í Frakklandi, kemur til með að leiða mótmælin 23. september næstkomandi. Emmanuel Macron, sem sigraði kosningarnar með nokkrum yfirburðum, lofaði því í kosningabaráttunni að ráðast í yfirgripsmikla einföldun á regluverki landsins um verkalýðsréttindi starfsmanna líkt og Viðskiptablaðið hefur áður gert að umfjöllunarefni sínu. Macron er þó ekki eini sem hefur reynt að hreyfa við kefinu - en forsetar Frakklands hafa reynt að hemja það síðastliðna tvo áratugi, með litlum árangri.

Sigur fyrir atvinnulífið

Í umfjöllun Financial Times um breytingarnar kemur fram að atvinnulífið væri raunverulegur sigurvegari vegna breytinganna. Um þessar mundir er atvinnuleysi í Frakklandi 9,5% og vill Macron draga úr því svo það verði komið niður í 7% árið 2022. Verkalýðslöggjöfin í Frakklandi hefur verið líkt við spennitreyju fyrir atvinnurekendur. Meðal stærstu breytinganna sem Macron leggur til er aukið frelsi þegar kemur að samningsviðræðum á milli starfsmanna og atvinnurekenda.

Margir forkólfar fransks atvinnulífs hafa opinberlega fagnað tillögum. Þá hefur til að mynda Jean-Baptiste Danet, yfirmaður Croissance Plus, samtaka nýsköpunarfyrirtækja í Frakklandi sagt að þetta væri til marks um nýtt hugarástand sem að bæri meiri virðingu fyrir frumkvöðlum. Alain Griset, yfirmaður U2P, sem er í forsvari fyrir minni atvinnurekendur sagði að breytingarnar endurspegluðu nánast öll vandamálin sem þau hefðu þurft að kljást við.

„Frakkar hata umbætur“

Macron ræddi við dagblaðið Le Point síðastliðinn miðvikudag um fyrirhugaðar breytingar þar sem að hann lofaði því að þær myndu hafa þau áhrif að auka vægi frumkvöðlastarfsemi innan þessa næst stærsta efnahags evrusvæðisins. „Við erum eini stóri efnahagurinn innan Evrópusambandsins sem hefur ekki náð að vinna bug á fjöldaatvinnuleysi í yfir þrjá áratugi,“ sagði Macron í viðtalinu.

Forseti Frakklands varaði einnig við að „Frakkar hati umbætur,“ og að hugmyndir hans um sveigjanlegra efnahagslíf í Frakklandi væru gífurleg breyting frá því sem áður var. Samkvæmt rannsókn sem framkvæmd var af Harris Interactive þá voru 58% Frakka andvígir breytingunum og 42% Frakka studdu þær. Samkvæmt sömu könnun studdu 82% stuðningsmanna Macron breytingarnar.