Frakkar hafa hótað því að mæta ekki á samráðsfund G20 ríkjanna sem haldinn verður í Lundúnum í vikunni ef kröfum þeirra um strangari reglur fjármálamarkaða verður ekki mætt.

Þetta hefur BBC eftir Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands í dag en í viðtali í þættinum Hard Talk sagði Lagarde að Frakkar myndu ekki undirrita neitt samkomulag ríkjanna sem ekki fæli í sér strangari samhæfðari reglur á fjármálamörkuðum.

Mikið hefur verið rætt um strangari reglur í aðdraganda fundarins en skiptar skoðanir hafa verið um hversu langt skal ganga en Frakkar hafa viljað ganga lengra en aðrir forsvarsmenn Evrópusambandsins og Bandaríkjanna.

Fari svo að Frakkar neiti að sækja fundinn, eða gangi út af honum, mun það verða mikil vonbrigði fyrir Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands og Barack Obama, forseta Bandaríkjanna en báðir hafa þeir ítrekar mikilvægi fundarins og að samastaða náist á honum sem muni leiða til bata á alþjóðavísu.