Franski mjólkurvörurframleiðandinn Lactalis hefur náð samkomulagi um kaup á skyrframleiðslu Sigurðar Kjartans Hilmarssonar í Bandaríkjunum, sem gengur undir nafninu Siggi´s skyr. Frá því var greint í fréttum, meðal annars Viðskiptablaðinu , nýlega að bandarískir fjárfestar væru langt komnir í viðræðum um kaup á skyrframleiðandanum fyrir andvirði um 30 milljarða króna.

Lactalis stefnir á að færa út kvíarnar í skyrframleiðslu í Bandaríkjunum með kaupunum „með þessu sérstaka og hraðvaxandi jógúrt merki,“ eins og fram kemur í frétt Reuters um málið.

Þar segir að Sigurður hafi stofnað fyrirtækið árið 2005 eftir uppskrift frá móður sinni í kjölfar þess að hann flutti til New York frá Íslandi, en fundist bandarískt jógúrt of sætt og gervilegt fyrir sinn smekk. Hann hafi verið kominn með heimþrá fyrir íslensku skyri sem sé með um 25% minni sykur en helstu vörumerkin í landinu, enda er slagorð fyrirtækisins: Einfalt hráefni, ekki mikill sykur.

Vörur Siggi´s eru í sölu í Whole Foods, Publix, Target, Wegmans og Starbucks, en Sigurður sjálfur mun áfram leiða fyrirtækið sem áfram verður sjálfstætt fyrirtæki.

„Grunngildi okkar um hreint hráefni og minni sykur munu haldast 100%,“ segir Sigurður. „Neytendur alls staðar eru að reyna að draga úr sykri í matarræði sínu svo það sem við erum með á boðstólum hefur alþjóðlega skírskotun.“

Lactalis er einn stærsti mjólkurvörurframleiðandi heims, með um 17 milljarða evra, eða sem nemur 2.135 milljarða íslenskra króna, í árlega sölu. Á sama tíma seldi svissneska mjólkurfyrirtækið Emmi 22% hlut sinn í Siggi´s til Lactalis.