Verkfallsaðgerðir í Frakklandi eru allar að færast í aukana, og nú eru kjarnorkuver, hafnir og samgöngukerfi landsins skotmörk verkfallsmanna. Forsætisráðherra landsins, Manuel Valls segir þó að mikilvægustu umbætur nýsamþykktrar vinnumarkaðslöggjafar sem er skotmark verkfallsmanna verði ekki breytt. Hann segist þó mögulegt að laga lögin eilítið til.

Verkfallsmenn hafa lokað vegum og brúm, ásamt kjarnorkukafbátahöfn í Normandí. Hægst hefur á raforkuframleiðslu í kjarnorkuverum landsins, en þau framleiða um 75% af raforkuþörf landsins, og tafir hafa orðið á flugi til og frá París, Nantes og Toulouse. Jafnframt er spáð að verkföll lestarstjóra muni hafa frekari áhrif á lestarsamgöngur í landinu.

Að auki hafa verkalýðsfélögin kallað eftir mótmælagöngum í helstu borgum Frakklands. Kemur þetta allt í kjölfar þess að olíuhreinsistöðvar hafa orðið fyrir miklum áhrifum af verkfallsaðgerðum og valdið bensínskorti víða um land, ásamt mikilvægum höfnum eins og Marseille og Le Havre.