Nicolas Sarkozy, forsetaframbjóðandi hægri manna, og Segolene Royal, forsetaframbjóðandi Sósíalista, fóru með sigur af hólmi í fyrstu umferð frönsku forsetakosninganna sem fram fóru á sunnudaginn. Sarkozy hlaut 31,18% atkvæða en Royal fékk hins vegar 25,87%, en það er besta kosning sem frambjóðandi Sósíalistaflokksins hefur hlotið í fyrri umferð frá því árið 1981 þegar François Mitterrand leiddi flokkinn til sigurs. Ekki hefur mælst meiri kosningaþátttaka í Frakklandi í fimmtíu ár, en um 85% kosningabærra manna greiddu atkvæði í kosningunum. Flokkarnir sem lengst eru til vinstri og hægri fengu samanlagt aðeins 10% og 11% atkvæða. Af þessum sökum telja stjórnmálaskýrendur að Sarkozy og Royal muni þurfa að leggja mikla áherslu á að sækja inn á miðjuna í málflutningi sínum næstu daga. Miklu máli gæti skipt hvorn frambjóðandann miðjumaðurinn Francois Bayrou ákveður að lýsa stuðningi við, en hann hlaut 18,57% atkvæða. Önnur umferð forsetakosninganna mun fara fram 6. maí næstkomandi.