Stjórnlagadómstóll Frakklands hefur komist að þeirri niðurstöðu að skattur á tekjur sem eru hærri en ein milljón evra eða 170 milljónir íslenskra króna verði ekki leyfilegur. Francois Hollande, forseti Frakklands, sem var kosinn í maí hafði lagt mikið upp úr því að þessi skattur yrði settur á.

Fram kemur á vef BBC að þessi skattur átti að taka gildi á nýju ári og hafði vakið hörð viðbrögð hjá efnameiri Frökkum. Leikarinn Gerard Depardieu var einn af þeim sem nýlega tilkynnti að hann ætlaði sér að flytja úr landi til að forðast skattana í Frakklandi.

Dómstóllinn komst að því að þessi skattur væri of hár og hafnaði þessari nýju aðferð við útreikningum á skatti.