Stjórnvöld í Þýskalandi og Frakklandi hafa sammælst um að loka fyrir notkun á nýrri rafmynnt Facebook, Libra í löndum sínum að því er Reuters hefur eftir franska fjármálaráðuneytinu. Virðist sem ráðherrar landanna hafi sammælst um þessa afstöðu í aðdraganda fundar fulltrúa frá Facebook með fulltrúum 26 seðlabönkum í Basel í Sviss á morgun mánudag að því er FT segir frá.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um er ætlunin að Libra verði notuð fyrir ýmis konar viðskipti innan Facebook og milli notenda þess og annarra fyrirtækja sem taka þátt í Libra samstarfinu eins og Uber og Lyft, en rafmyntin kemur í kjölfar frumkvöðla í rafmynntaheiminum eins og Bitcoin. Er líklegt að rafmynntin geti skilað útgefendum sínum gríðarlegum hagnaði .

Benoit Coeuré frá Seðlabanka Evrópu hefur látið hafa eftir sér í aðdraganda fundarins að til að mjög miklar reglugerðarkröfur verði á Facebook til að fá heimild til að starfrækja myntina. Niðurstöður fundarins verða síðan hluti af skýrslu sem fjármálaráðherrar G7 ríkjanna munu skoða á fundi fjármálaráðherra landanna í október.

Í yfirlýsingu ríkisstjórna landanna tveggja, sem vel að merkja eru bæði notendur evrunnar, segir að „enginn einkaaðili getur tekið að sér peningamál, enda sé það grundvallarþáttur í sjálsfákvörðunarrétti þjóða“.

Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands segir að ekki ætti að leyfa notkun rafmyntarinnar í Evrópu yfir höfuð, meðan áhyggjur væru uppi um sjálfstæði og viðvarandi fjárhagslega áhættu. Frakkar eru nú með forsæti G7 hópsins en þjóðirnar skiptast á hlutverkinu. Hafa þeir sett saman rannsóknarteymi til að skoða rafmynntir en fyrrnefndur Coeuré stýrir hópnum.

Þess má geta að evran hefur verið í viðvarandi vandræðum síðasta áratuginn eða svo og hafa tilfæringar í þá átt að til að draga úr eða hætta magnbundinni íhlutun verið teknar til baka og vextir enn neikvæðir.