Francois Fillon, forsætisráðherra Frakklands tilkynnti í dag að franska ríkisstjórnin hefði ákveðið að örva hagkerfið þar í landi með 26 milljarða evra innspýtingu.

Fillon greindi frá því að um 11 milljörðum evra yrði varið til að koma fyrirtækjum til aðstoðar auk þess sem rúmlega 4 milljörðum evra yrði varið til opinberra framkvæmda, svo sem mannvirkjagerð, orkuframkvæmdir og aukna þjónustu hins opinbera.

Fyrr í dag sagði Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands að Frakkar myndu „fyrr eða síðar“ horfast í augu við kreppuna og því væri nauðsynlegt að grípa til aðgerða.

Fillon sagði í samtali við fjölmiðla að með innspýtingunni myndi hagvöxtur í Frakklandi aukast um 1,3% en Lagarde sagði aftur á móti að mögulega þyrfti að grípa til annarra aðgerða ef ekki ætti að fara illa.

„Það kæmi mér á óvart ef það verður einhver hagvöxtur á þessu ári,“ sagði Lagarde en stjórnarandstaðan og fjölmiðlar í Frakklandi eru þegar farnir að tala um ósamræmi í ríkisstjórninni vegna misvísandi skilaboða.

Þá gerir efnahagsspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ráð fyrir 1,9% samdrætti franska hagkerfisins á þessu ári.