Frönsk yfirvöld hafa sektað Google um hundrað milljónir evra, andvirði 15,5 milljarða króna, og Amazon um 35 milljónir evra, jafnvirði 5,5 milljarða króna. Það er mat yfirvalda að félögin tvö hafi brotið í bága við lög Evrópusambandsins hvað varðar vafrakökur.

Sagt er frá því að félögin hafi notast við vafrakökur, og því fylgst með viðveru notenda á netinu, án þess að gera þeim  grein fyrir því, að því er segir í frétt BBC.

Enn fremur hafi upplýsingagjöf Google og Amazon ekki verið nægjanlega góð. Félögin hafi ekki sagt frá því hvernig hægt væri að hafna því að fylgst væri með notendum og hvernig væri verið að fylgjast með þeim. Yfirvöld hafa veitt fyrirtækjunum þrjá mánuði til þess að breyta upplýsingagjöf sinni. Hafa breytingarnar ekki litið dagsins ljós innan þriggja mánaða munu félögin fá dagsekt upp á 100 þúsund evrur, um 15,5 milljónir króna.

Forsvarsmenn fyrirtækjanna hafa mótmælt sektunum. Meðal annars er tekið fram að reglugerðir þarlendis séu ekki nægjanlega skýrir og séu sífellt að taka breytingum. Amazon segist vera ósammála niðurstöðu CNIL, frönsku stofnuninni sem ákvað sektirnar.