Frönsk stjórnvöld vilja fresta aðgengi breskra fjármálafyrirtækja að innri markaði Evrópusambandsins nema bresk stjórnvöld virði skuldbindingar sínar um fiksveiðiheimildir við Ermarsundseyjar. Bloomberg greinir frá.

Frönsk stjórnvöld eru að reyna að fresta samþykki um viljayfirlýsingu um aukið samstarf á sviði fjármála en það er fyrsta skrefið í að bresk fjármálafyrirtæki fái aðgengi að innri markaði Evrópusambandsins. Með þessu reyna þau að setja þrýsting á bresk stjórnvöld að virða samkomulag um fiskveiðiheimildir sem gerðar voru í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Þá hafa fjármálafyrirtæki með höfuðstöðvar í London átt í stökustu vandræðum í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Eins og frægt er orðið tókst ekki að tryggja aðgengi breskra fjármálafyrirtækja að innri markaðinum í kjölfar útgöngunnar. Þetta hefur gert það að verkum að fjármálafyrirtæki, líkt og JPMorgan Chase og Goldman Sachs, hafa þurft að flytja milljarða Bandaríkjadollara og þúsundir starfsmanna til meginlandsins.

Deilan snýst um leyfi til fiskveiða við ermasundseyjar en krafa er gerð um frönsk skip hafi veitt áður við eyjarnar og að þau geti sýnt fram á það. Þá hafa frönsk stjórnvöld haldið því fram að aðrar og meiri kröfur hafi verið gerðar til franskra fiskveiðiskipa en upphaflega var samið um. Spennan á milli landanna jókst til muna í síðustu viku þegar að sjóherskip frá báðum löndum voru send til bresku eyjarinnar Jersey sem er aðeins 22 km frá ströndum Frakklands.