Frakkland er þekkt fyrir að vera einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna en jafnframt einnig sem staðurinn þar sem dónalegustu starfsmenn þjónustugeirans vinna. Um þessar mundir hafa Frakkar ákveðið að taka sig á í þjónustulund sinni sérstaklega í ljósi þeirra háu fjárhæða sem eru í húfi.

Verið er að vinna í því að gera bæði götur Parísar og veitingastaði þess vinalegri. Fleur Pellerin, nýsköpunarráðherra Frakklands, sagði á fundi í síðustu viku að Frakkar yrði að enduruppgötva þjónustulund sína og að allir væru meðvitaðir um að þeir gætu gert betur í garð ferðamanna.

Pellerin benti einnig á að Frakkland hefði ekki efni á að missa þær tekjur sem ferðamennska skilar árlega inn í hagkerfið en þær nema um það bil 16 milljörðum Bandaríkja dala.

Franski blaðamaðurinn Agnes Poirier segir í samtali við CNN að hún trúi að viðhorf Frakka til ferðamanna sé að breytast og að þeir séu mun kurteisari í garð þeirra en áður, auk þess sem þeir eru líklegri til að tala ensku og vísa til vegar en áður.

Hún segir erfitt fyrir til dæmis Parísarbúa að hunsa ferðamenn í ljósi þess hvað þeir eyða miklu og eru mikilvægir fyrir betri hagvöxt í landinu.