Ráðamenn í Frakklandi styðja áform framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem vill innleiða reglur um kynjakvóta í stjórnum skráðra fyrirtækja. Frakkland er fyrsta aðildarríki Evrópusambandsins til að styðja tillöguna. Bretar eru henni hins vegar mótfallnir. Stjórnvöld í Bretlandi hafa fengið ríkisstjórnir níu annarra aðildarríkja til lags við sig gegn tillögunni. Þar á meðal eru Hollendingar, Ungverjar og Tékkar.

Í netútgáfu breska viðskiptablaðsins Financial Times segir m.a. að stjórnvöld í Frakklandi þrýsti á framkvæmdastjórnina að gera kvaðirnar að veruleika auk þess að beita þau fyrirtæki þvingunum sem standi í vegi fyrir því að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja.

Í Frakklandi eru fyrir álíka lög sem kveða á um að árið 2014 verði fimmtungur stjórnarmanna í skráðum fyrirtækjum að vera konur. Hlutfallið á að vera komið upp í 40% árið 2017. Það eru sambærilegt hlutfall og framkvæmdastjórn ESB vill koma á.