Franska ríkið undirbýr nú sérstakan menningarskatt á snjallsíma, spjaldtölvur, lesbretti og önnur nettengd tæki. Samkvæmt frétt Financial Times mun skatturinn nema um 4% af söluverði viðkomandi tækis og á að nota hann til að styrkja framleiðslu á frönskum kvikmyndum, tónlist og annarri list.

Tillagan kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir ríkisstjórn Francois Hollande og segir Aurélie Filippetti menningarmálaráðherra að nýi skatturinn gæti orðið hluti af fjárlögum næsta árs.

Frakkland hefur lengi styrkt þarlenda menningarstarfsemi umfram það sem gerist og gengur annars staðar og felst það m.a. í fjárstyrkjum til þeirra sem framleiða menningartengda vöru og einnig í kvótum á sjónvarps- og útvarpsstöðvar sem eru skyldaðar til að hafa ákveðið lágmark fransks efnis á dagskránni.