Unnið er að endurfjármögnun Alfesca og skuldabréfaútgáfu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Franska félagið Lur Berri Cooperative Holding mun, samkvæmt áformum sem unnið er eftir, taka félagið alveg yfir og verða eini eigandi þess. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2010 var Kjalar Invest B.V., félag í eigu Ólafs Ólafssonar, eigandi 40% hlutafjár en Lur Berri fór með um 50% hlutafjár. Smærri hluthafar fóru með um 10% hlut.

Eigið fé Alfesca, þ.e. eignir umfram skuldir, námu rúmlega 62 milljörðum króna 2010 samkvæmt ársreikningi félagsins. Reikningsárið er frá júní 2009 til júlí 2010. Hagnaður félagsins var um 35 milljónir evra eða sem nemur 5,7 milljörðum króna. Heildareignir námu 695 milljónum evra, um 114 milljörðum króna, en heildarskuldir voru 319,2 milljónir evra, um 52 milljarðar króna. Rekstur félagsins hefur verið góður á undanförnum árum, samkvæmt ársreikningum. Hann hefur haldist stöðugur í gegnum mikið samdráttarskeið á alþjóðamörkuðum, frá árinu 2007 og fram á þetta ár.

Alfesca sérhæfir sig í framleiðslu og sölu á hágæða sjávarafurðum fyrir Evrópumarkað. Stærstu markaðir fyrir vörur fyrirtækisins eru í Bretlandi og Frakklandi. Einnig selur fyrirtækið vörur inn á markað víðar, m.a. á Ítalíu og Grikklandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.