Nýskipaður forsætisráðherra Frakklands, François Fillon, hefur heitið skjótum aðgerðum sem miði að því að blása lífi í efnahag Frakklands.

"Frakkland er keppnisbifreið í Formúlu 1. Við þurfum að keyra á fullum krafti til að standast alþjóðlega samkeppni, á sama tíma og gætt er að vélinni og séð til þess að bifreiðin endi ekki útaf brautinni," sagði Fillon í viðtali við franska fjölmiðla. Hann sagði jafnframt að nauðsyn væri að hafa hraðan á, þar sem Frakkland hafi dregist verulega aftur úr.

Þessa stefnu kynnir Fillon í aðdraganda þingkosninga Frakklands, sem fara fram í júní næstkomandi, en spáð er að UMP, hægri-flokkur Sarkozy og Fillon, muni sigra með miklum meirihluta. Í kjölfar kosninganna hefur ríkisstjórnin boðað að haldinn verði sérstakur þingfundur þar sem gerðar verða verulegar umbætur á skattaumhverfi landsins. Fillon ítrekaði að þessi umbótaáætlun verði lögð fram í júlí og að hún muni hrista verulega upp í efnahagnum og snúa honum á rétta braut.

Samkvæmt áætluninni mun yfirvinna verða undanskilin skatti, vaxtagreiðslur af fasteignalánum verða frádráttarbærar frá skatti, erfðaskatti verður nánast útrýmt og 50% þak sett á heildarsköttun einstaklinga.

Meðal markmiða Fillon og frönsku ríkisstjórnarinnar er að stefna að því að ná 3% hagvexti í landinu. Fillon vildi þó ekki gefa upp tímamörk um hvenær þessu markmiði skuli náð. Hann segir að spár ríkisstjórnarinnar um 2,25 til 2,5% hagvöxt á árinu standi í bili, sem sé nokkuð gott miðað við hvernig hagvöxtur þjóðarinnar hafi verið að undanförnu, en síður í samanburði við meðaltal stærri þjóða.