Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands, kallaði eftir harðari viðurlögum við brotum á fjármálamarkaði þegar hún kynnti ríkisstjórninni fyrr í dag ellefu blaðsíðna skýrslu sína um svikamálið í Societe Generale.

Lagði hún til að hámarksfjárhæð sektar sem fjármálaeftirlitið franska getur lagt á brotlega aðila verði hækkuð verulega, en hámarksekt er nú um 5 milljónir evra, eða tæplega hálfur milljarður króna. „Þegar haft er í huga hversu mikið er í húfu og hversu hár kostnaðurinn er við að fjárfesta í skilvirku innra eftirlitskerfi, eru gildandi upphæðir ónógar,” sagði Lagarde.

Eftirlitskerfið óvirkt að hluta

Í skýrslu Legarde um svikamálið í Societe Generale er frásögn forsvarsmanna bankans af svikum Jerome Kerviel ekki dregin í efa né að hann hafi starfað einsamall. Þess má geta að skoðanakönnun sem gerð var í Frakklandi á föstudag sýnir að um 50% svarenda telja sökina liggja hjá yfirstjórn Societe Generale en aðeins 13% að Kerviel sé sökudólgurinn.

Skýrslan einkennis lítt af ásökunum en þess í stað er lögð áhersla á þann lærdóm sem draga megi af fjármálahneykslinu sem valdið hefur uppnámi í frönsku fjármálalífi og stefnt öðrum stærsta banka Frakklands í mikinn vanda.

„Það er greinilegt að gangvirki innra eftirlitskerfis Societe Generale var óvirkt að ákveðnu leyti og þeir hlutar þess sem virkuðu voru ekki alltaf studdir með viðeigandi breytingum,” sagði Lagarde.

Í skýrslunni er að finna ýmsar tillögur um að styrkja eftirlit með markaðsviðskiptum og hvernig koma má í veg fyrir sviksamlegt hátterni. Meðal annars er lagt til að hátt settir yfirmenn banka taki beinan þátt í að hindra misferli miðlara og að eftirlitskerfi banka eigi að gefa innri svikum sérstakan gaum.

Hún lagði einnig áherslu á að fram fari gagnger endurskoðun á bankakerfinu, sem leitt gæti til breytinga á lögum og reglum um franska banka. Í kjölfarið sendi Societe Generale frá sér yfirlýsingu þar sem það fullyrti að bankinn hefði þegar gripið til aðgerða í því skyni að styrkja innra eftirlit sitt. „Við höfum eflt eða munum efla innan tíðar þær eftirlitsstöðvar sem sniðgengnar voru á árangursríkan hátt í umræddum svikum,” segir í yfirlýsingunni.

Sakað um þátttöku í peningaþvætti

Mál Kerviel er þó ekki hið eina sem hrjáir Societe Generale um þessar mundir, því í dag hófust réttarhöld í París vegna meints peningaþvættis upp á milljónir dollara sem átti sér stað á síðari hluta 10. áratugar liðinnar aldar og teygði sig frá Ísrael til Frakklands. Fjórir bankar og 138 einstaklingar eru bornir sökum í málinu, þar á meðal stjórnarformaður Societe Generale, Daniel Bouton.