Franska ríkið mun hækka skatta á þessu ári og því næsta til að brúa það bil sem er milli tekna og gjalda í ríkisbúskapnum. Halli á ríkissjóði Frakklands var 4,8% af vergri landsframleiðslu í fyrra, en samkvæmt stöðugleikasáttmála evruríkjanna má hallinn ekki vera yfir 3% af landsframleiðslu. Markmið ríkisstjórnar Francois Hollande var að halda hallanum undir 4,5% af landsframleiðslu.

Áætlanir stjórnarinnar gera nú ráð fyrir því að hallinn verði 3,7% í ár og 2,9% árið 2014. Nýir skattar eiga að skila sex milljörðum evra í ríkiskassann og á hlutfall skatta af vergri landsframleiðslu að hækka úr 44,9% í fyrra í 46,3% í ár og 46,5% á því næsta. Það skemmir hins vegar fyrir tilrauninni að hlutfall ríkisútgjalda af landsframleiðslu á að hækka úr 56,6% í fyrra í 56,9% í ár.

Fjármálaráðherra Frakklands, Pierre Moscovici, óskaði eftir því á ráðherrafundi ESB um helgina að Frakkland fengi heimild til að fara fram úr viðmiðum stöðugleikasáttmálans í ár.