Utanríkisráðherra Frakklands, Laurent Fabius, sagði í dag að Frakkland myndi taka breskum fyrirtækjum opnum örmum ef Bretland ákveður að yfirgefa Evrópusambandið. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði í ræðu í morgun að hann vildi að Bretar semdu á ný um aðild sína að Evrópusambandinu og að í kjölfarið ætti að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildina.

„Ef Bretland ákveður að yfirgefa ESB munum við rúlla út rauða dreglinum fyrir breska athafnamenn,“ sagði Fabius í kjölfarið. Samtök breskra fyrirtækja hafa hins vegar tekið vel í yfirlýsingu Camerons.

Fabius sagði að ekki væri hægt að vera í einhvers konar matseðilsaðild að sambandinu, þar sem ríki ákveða hvaða þættir sambandsins þau vilja vera með í og hvar þau vilja standa fyrir utan sambandið. Líkti hann sambandinu við knattspyrnufélag og sagði að þegar leikmaður hefur gengið í félagið geti hann ekki allt í einu ákveðið að hann vilji leika ruðning.

Ummæli Fabius um rauða dregilinn voru svar við ummælum Camerons frá því í fyrra. Þá sagði hann að Bretland myndi rúlla út slíkum dregli fyrir franska athafnamenn sem vildu flýja land vegna hærri skatta.