Frakkland og Spánn eru gagnrýnd fyrir að vernda innlend orkufyrirtæki frá yfirtöku erlendra aðila og mun Evrópusambandið væntanlega taka á því, segir greiningardeild Landsbankans.

Leiðtogar Evrópusambandsins munu funda í kvöld í Brussel. Fundinum er ætlað að hleypa nýju lífi í umræðuna um sameiginlegan markað.

Það er talið líklegt að nýlegar fréttir af orkufyrirtækjum geti ýtti undir deilur á fundinum en þetta er fyrsti fundur leiðtoganna frá því að frönsk yfirvöld hlutuðust til um sameiningu orkufyrirtækjanna Suez og Gaz de France til þess að hindra hugsanlegt yfirtökutilboð ítalska fyrirtækisins Enel á Suez.

Fundurinn er einnig sá fyrsti sem haldinn er síðan spænsk yfirvöld settu reglur til þess að hindra yfirtöku þýska orkurisans E.ON á spænska fyrirtækinu Endesa.

Óttast er að einokun og samkeppnishindranir á orkumarkaði geti haft slæm áhrif á hagkerfið, valdið hærra verðlagi og skorti á framboði.

Ennfremur gæti framþróunin í þessum málum valdið því að aðildarlönd Evrópusambandsins verði enn háðari orkuinnflutningi í framtíðinni, en reynt er að koma í veg fyrir að innflutningur á orku aukist í 70% árið 2030, úr 50% í dag.