Viðskiptavæntingavísitalan í Frakklandi mælist nú 73 stig og lækkar úr 79 stigum frá því í nóvember.

Að sögn INSEE stofnunarinnar sem tekur vísitöluna saman hefur hún aldrei verið lægri.

„Það er ljóst að horfurnar meðal atvinnurekenda og í viðskiptalífinu almenn fara versnandi,“ segir í tilkynningu frá INSEE.

Franska hagkerfið dróst saman um 0,8% á fjórða ársfjórðungi þess árs (miðað við 30.nóv) og franska hagstofan spáir því að hagkerfið muni dragast saman um 0,4% á fyrsta ársfjórðungi 2009.

Gangi sú spá eftir er hagkerfi Frakklands formlega í samdrætti.

Viðskiptavæntingavísitalan er sem fyrr segir í algjöru lágmarki en greiningaraðilar höfðu ekki gert ráð fyrir henni svona lágri.

„Þetta er hræðilegt,“ segir Olivier Gasnier, hagfræðingur hjá Societe Generale bankanum.

„Það er ljóst að framleiðsla og framleiðni er í lágmarki og þannig mun það líklega vera fram á sumar:“