Flutningsgeta Delta Air Lines vélanna, sem munu bjóða uppá fraktflug milli Keflavíkur og New York fimm sinnum í viku í sumar, er aðeins lítill hluti af heildar flutningsgetu sem stendur inn- og útflytjendum til boða. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair Cargo fljúgja sem dæmi þeirra vélar 28 flug á viku til Boston og New York sem telst vera sama markaðssvæði. Í þessum vélum sé hægt að taka allt að 7 tonn af frakt - eins og sagt er að Delta vélarnar taki - þótt það sé breytilegt eftir farþegafjölda hverju sinni í tilfellum Icelandair vélanna.

Mikael Tal Grétarsson, forstöðumaður útflutnings hjá Icelandair Cargo, segir að þessu til viðbótar fljúgi sérstök fraktvél á laugardögum sem hafi mun meiri burðargetu eða um 30 tonn. Svo fljúgi Icelandair einnig til Washington og auðvitað fleiri borga Bandaríkjanna og til Kanada í sumar.

Mikael segir að samkeppnin frá Delta verði varla til þess að raska jafnvægi á þessum markaði. Icelandair Cargo muni áfram einbeita sér að því að  þjónusta sína viðskiptavini vel og öll samkeppni sé af hinu góða. Fraktmarkaðurinn sé þannig að það dragi úr flutningum á sumrin þegar framleiðsla dragist saman og hlutfall farþegaflugs eykst.