Það er út í hött að afnema bankaleynd, segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, í viðtali við Viðskiptablaðið í dag. Spurður um afnám bankaleyndar segir hann: „Mér finnst það út í hött, svipað og að veita almenningi aðgang að sjúkraskrám á spítölum. Ég veit að almenningur myndi ekki vilja að Pétur og Páll fengi óheftan aðgang að kreditkortareikningum eða mánaðarlegum greiðsluyfirlitum. Það er mikið ábyrgðarhlutverk að vinna í banka og það gilda stífar reglur um starfsemi bankamanna og um fagmennsku þeirra. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk brjóti trúnað eða svipti hulunni af einhverju sem því er samkvæmt lögum ekki heimilt að gera.“

Þetta segir hann kjarnann í bankaleyndinni. „Það er klárt mál að fjármál fólks eru einkamál en sé rökstuddur grunur um lögbrot einhvers staðar þá treysti ég þeim eftirlitsstofnunum sem eiga að hafa eftirlit með því til að rannsaka það ofan í kjölinn og fella sína dóma eftir rannsókn. Að ætla að afnema bankaleynd er hins vegar fjarstæðukennd krafa,“ segir Þorvaldur Lúðvík.

Viðtalið er birt í heild í Viðskiptablaðinu í dag og þar er komið víða við. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér á vb.is .