Davíð Oddsson seðlabankastjóri telur ekki að hægt sé að tala um kreppu í íslensku bankakerfi og efnahagslífi, en sem kunnugt er hafa útlend greiningarfyrirtæki og bankar sent frá sér skýrslur sem valdið hafa óróa á íslenskum hlutabréfa- og gjaldeyrismarkaði að undanförnu. "Ég tel að þetta sé ekki kreppa -- ekki einu sinni vísbending um kreppu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn átti sig á því," segir Davíð Oddsson í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

"Þetta snýr í raun að ákveðnum mjög afmörkuðum þáttum. Íslensku bankarnir eru orðnir töluvert háðir erlendri fjármögnun og því fylgir að þeir þurfa að njóta mikils trausts á markaði; hafa mikið fyrir því að ávinna sér það traust og halda því. Núna vekja menn athygli á að markaðurinn meti bankana verr en alþjóðlegu matsfyrirtækin og gefa sér að matsfyrirtækin muni breyta áliti sínu til samræmis við markaðinn. En það er athyglisvert að matsfyrirtækin halda enn sínum sjónarmiðum eftir skoðun á bankakerfinu og telja að staða bankanna sé traust og öflug. Ef vel tekst til í framhaldinu er líklegast að markaðurinn muni laga sig að mati matsfyrirtækjanna, en ekki öfugt," segir Davíð.

Viðtalið við Davíð Oddsson er birt í Viðskiptablaðinu í dag í heild.