Jens Þórðarson er nýráðinn framkvæmdastjóri Geo Salmo sem var stofnað snemma árs 2021 til að skoða hugmyndina um laxeldi á landi. Félagið ákvað að sækjast eftir því að byggja upp við Þorlákshöfn eftir að ýmsar hugmyndir um staðarval höfðu verið skoðaðar en áformað er að framleiða allt að 24.000 tonnum af laxi á ári.

„Þetta er ofboðslega stórt tækifæri til að skapa umhverfisvæna matvöru sem hefur bæði lítið kolefnisspor og önnur umhverfisáhrif. Við sjáum í raun og veru möguleika á því að framleiða umhverfisvænasta dýraprótein sem hugsast getur. Það er spennandi að vera svona snemma í því að taka laxeldi á land á heimsvísu og taka þátt í því að finna lausnir á matvælavanda heimsins," segir Jens.

Félagið er komið með vilyrði fyrir lóð og er komið á fullt í undirbúningsvinnu. Þá er stefnt að því að hefja uppbyggingu á stöðinni á næsta ári en hönnunarvinna er nú þegar hafin.

„Við viljum geta tryggt að framleiðslan verði bæði skilvirk en að einnig sé farið vel með dýrin."

Hann segir félagið hafa metnað til að vera framarlega í kúrfunni þegar kemur að því að ná að framleiða á þeim skala sem þarf til að laxinn geti orðið matur framtíðarinnar. Geo Salmo stefni ekki einungis á að byggja upp á Íslandi heldur einnig á heimsvísu.

„Ég er ennþá að átta mig á því hversu umfangsmikið þetta verkefni er. Ein svona laxeldisstöð er alveg að svipuðu umfangi og stærstu stóriðjufyrirtæki á Íslandi."